Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 1150  —  284. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um fylgdarlaus börn sem sækja um alþjóðlega vernd.


     1.      Hve mörg fylgdarlaus börn skv. 11. tölul. 3. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi á síðustu fimm árum og hver var aldur þeirra og kyn?
    Eftirfarandi tafla sýnir fjölda einstaklinga sem hafa borið því við að vera fylgdarlaus ungmenni við umsókn um vernd, eftir ári, 2012–2017, og aldri, miðað við uppgefinn fæðingardag.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hve hátt hlutfall þessara barna fengu alþjóðlega vernd á síðustu fimm árum?
    Taflan hér á eftir sýnir ákvarðanir í málum þar sem staðfest hefur verið að um fylgdarlaus ungmenni hafi verið að ræða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     3.      Hafa fylgdarlaus börn verið send til annars viðkomulands á síðustu fimm árum á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 604/2013 (Dublin III) og fyrirrennara hennar og ef svo er, hversu mörg börn eiga í hlut og hver var aldur þeirra og kyn?
    Undanfarin fimm ár hafa engin fylgdarlaus börn verið send til annars ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

     4.      Hvernig ganga íslensk stjórnvöld úr skugga um að fylgdarlaus börn, sem komið er í veg fyrir að sæki um alþjóðlega vernd á Íslandi og send annað, fái aðbúnað og málsmeðferð sem samræmist alþjóðlegum skuldbindingum um réttindi barnsins sem Ísland hefur fullgilt?
    Við svar þessa liðar er gert ráð fyrir því, með tilliti til orðalags 5. liðar sömu fyrirspurnar, að fyrirspyrjandi eigi við þá málsmeðferð þegar umsækjanda er synjað um efnislega meðferð á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. útlendingalaga. Íslensk stjórnvöld meina ekki einstaklingum að sækjast eftir alþjóðlegri vernd. Einstaklingur getur án undantekninga lagt fram umsókn um vernd hér á landi og er umsókn viðkomandi þá annaðhvort tekin til efnislegrar meðferðar eða henni synjað um efnislega meðferð.
    Dyflinnarreglugerðin er hluti af sameiginlegu kerfi Evrópusambandsins um umsóknir um alþjóðlega vernd (e. Common European Asylum System). Markmið samstarfsins er að skýrar reglur séu í gildi í aðildarríkjunum um meðferð á umsóknum um alþjóðlega vernd. Á það ekki síst við til að koma í veg fyrir að vafi leiki á um hvar umsókn skuli tekin til meðferðar. Þannig er tryggt að umsókn um alþjóðlega vernd sé tekin til meðferðar í einu aðildarríkjanna og komið í veg fyrir að umsækjandi sé sendur frá einu aðildarríki til annars án þess að nokkurt þeirra viðurkenni ábyrgð sína á meðferð umsóknar. Í reglugerðinni eru viðmið um hvaða ríki ber ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd. Um þau viðmið er fjallað í III. kafla hennar. Reglugerðin lýtur þannig eingöngu að því að ákveða hvaða ríki beri ábyrgð á afgreiðslu á umsókn; ekki að því hvernig meta beri umsóknina efnislega.
    Gerðar voru breytingar á viðmiðunum árið 2013 til að koma til móts við dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og Mannréttindadómstóls Evrópu (MSE). Að auki var leitast við að tryggja betur réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Breytingarnar fólu í sér að þegar svo miklir gallar eru taldir á móttöku eða málsmeðferð gagnvart umsækjanda í því aðildarríki sem ábyrgðina ber samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni að hætta sé á að viðkomandi verði fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð, í skilningi 4. gr. réttindaskrár Evrópusambandsins og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, skal aðildarríkið þar sem umsækjandi er staddur taka umsóknina til meðferðar.
    Dyflinnarsamstarfið byggist á þeirri grundvallarforsendu að aðildarríkin fari öll eftir reglunni um öruggt þriðja ríki og að þangað sé heimilt og öruggt að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd. Til að tryggja virkni kerfisins sem samstarfið byggist á þarf framkvæmdin hvað það varðar að vera skýr og jafnræðis gætt við málsmeðferð. Af þeim sökum er mikilvægt að beita aðeins áðurnefndu ákvæði í þeim tilvikum þar sem hætta er á að umsækjandi verði fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð.
    Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála ber að kanna sérstaklega í öllum málum, sem falla undir gildissvið Dyflinnarreglugerðinnar, þær aðstæður sem bíða umsækjanda í viðtökuríki áður en tekin er ákvörðun um endursendingu. Framangreind sjónarmið endurspeglast ekki aðeins í reglugerðinni heldur einnig í 36. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmála Evrópu og framkvæmd Mannréttindadómstólsins, svo dæmi séu tekin. Í framangreindum ákvæðum laga og alþjóðasamninga er lagt bann við því að vísa flóttamanni úr landi eða endursenda hann til ríkis þar sem lífi hans eða frelsi er ógnað, m.a. vegna kynþáttar, þjóðernis eða stjórnmálaskoðana.
    Til þess að ganga úr skugga um að umsækjandi um alþjóðlega vernd eigi ekki á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð kannar Útlendingastofnun, í hverju máli fyrir sig, hvaða aðstæður bíða viðkomandi einstklings í viðtökuríki. Er þá einkum horft til atriða er lúta að húsnæði, aðbúnaði og þjónustu, sem og málsmeðferðarúrræðum. Við rannsókn Útlendingastofnunar er stuðst við upplýsingar úr alþjóðlegum skýrslum um viðtökuríki, t.d. frá Asylum Information Database (AIDA), og skýrslur og leiðbeiningar frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (Refworld).
    Þá er viðtal Útlendingastofnunar og kærunefndar við umsækjanda hluti af rannsókn máls og hefur þann megintilgang að varpa ljósi á aðstæður umsækjanda í viðtökuríki, hafi hann dvalið þar áður, og þá málsmeðferð sem honum hefur þegar staðið til boða. Útlendingastofnun hefur einnig samband við stjórnvöld í viðtökuríki, telji stofnunin tilefni til, í því skyni að fá frekari upplýsingar um málsmeðferðarúrræði eða þær aðstæður sem bíða umsækjanda við komuna til viðkomandi lands. Öll mál eru skoðuð á einstaklingsgrundvelli og að teknu tilliti til aðstæðna og móttöku hvers og eins.
    Þegar um er að ræða fylgdarlaus börn eru aðstæður og aðbúnaður barna vandlega kannaður. Þá er móttökukerfi og afgreiðsla umsókna um alþjóðlega vernd skoðuð eins og í öllum málum sem fjallað er um á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þetta er gert með því að afla upplýsinga frá viðurkenndum alþjóðastofnunum og félagasamtökum.
    Við málsmeðferð á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar er það sem barni er fyrir bestu ávallt haft að leiðarljósi og barnið fær að láta skoðanir sínar í ljós. Þegar fyrir liggja nægilega greinargóðar upplýsingar um það ríki sem ber ábyrgð á umsókninni er tekin ákvörðun um hvort aðstæður séu með þeim hætti að öruggt sé að senda barnið til viðkomandi ríkis.
    Þá hefur verið viðurkennd framkvæmd varðandi fylgdarlaus börn að mál þeirra eru tekin til efnislegrar meðferðar í því ríki sem barnið er statt í, sé ekki búið að afgreiða málið í því ríki sem það kemur frá og ber ábyrgð á umsókninni samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni. Rökin fyrir þessu eru m.a. þau að barnið hafi að líkindum dvalið í skamman tíma í því ríki, sem ber ábyrgð á umsókninni, og barninu sé fyrir bestu að málið sé afgreitt og lokið þar sem barnið er statt.
    Sé málsmeðferð lokið í ábyrgu ríki þarf að skoða hvort það samræmist hagsmunum barnsins að það sé sent til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Ekkert fylgdarlaust barn hefur verið sent frá Íslandi til ábyrgs ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar; öll málin hafa hlotið efnislega meðferð.

     5.      Hvert er viðhorf ráðherra til þess að hafna því að taka umsókn þessara barna til meðferðar en senda þau þess í stað til annars lands á grundvelli regluverks?
    Ekkert fylgdarlaust barn hefur verið sent til ábyrgs ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, sem fyrr segir hafa öll mál er lúta að fylgdarlausum börnum verið tekin til efnislegrar meðferð hér á landi.
    Ráðherra telur Dyflinnarreglugerðina ekki brjóta í bága við þær alþjóðaskuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist, þ.e. Flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindasáttmála Evrópu og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Það er jafnframt afstaða ráðherra að við framkvæmd Dyflinnarreglugerðarinnar, þar með talið mat og málsmeðferð stjórnvalda, þ.e. Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála og embættis ríkislögreglustjóra, þurfi að taka mið af ákvæðum íslenskra laga, ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar, þeim alþjóðasamningum sem við eiga og fordæmum íslenskra dómstóla og Mannréttindadómstóls Evrópu. Fylgdarlaus börn eru viðkvæmur hópur sem gæta þarf sérstaklega að og því eru aðstæður þeirra skoðaðar sérstaklega í hverju máli fyrir sig. Útlendingastofnun leggur sjálfstætt mat á umsóknir barna, og eftir atvikum kærunefnd útlendingamála einnig.

     6.      Hvernig telur ráðherra að bregðast eigi við vaxandi fjölda fylgdarlausra barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi?
    Við vaxandi fjölda fylgdarlausra barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi verður að bregðast meðal annars með bættu verklagi og aukinni skilvirkni en ráðuneytið vinnur nú að gerð skriflegra verklagsreglna í samstarfi við Barnaverndarstofu og Útlendingastofnun er varðar fylgdarlaus börn sem koma hingað til lands. Ráðuneytið efndi einnig til fundar hinn 14. mars síðastliðinn vegna málefna barna sem eru í leit að alþjóðlegri vernd. Á fundinn mættu aðilar frá stofnunum og samtökum sem koma að þessum málum, t.d. Útlendingastofnun, lögreglu, ríkislögreglustjóra, Barnaverndarstofu, barnaverndarnefndum, Rauða krossi Íslands, velferðarráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Fram kom m.a. að nauðsynlegt væri að bæta búsetu- og móttökuúrræði Útlendingastofnunar með þeim hætti að þau væru fullnægjandi fyrir börn ásamt því að koma á ákveðnara verklagi til að tryggja og skýra hlutverk hverrar stofnunar fyrir sig.
    Þá telur ráðherra mikilvægt að tryggja áframhaldandi samvinnu allra þeirra stofnana sem að þessum málum koma og dómsmálaráðuneytið haldi utan um þá vinnu svo tryggja megi að nauðsynlegar lagabreytingar verði gerðar, verklagsreglur settar og þeim hrint í framkvæmd.